Færsluflokkur: Bloggar

Mismunum franskra þegna

Frönsk stúlka fagnar Bastille deginumÞað er eitt, og get ég skilið það, að banna öllu fóki að hylja andlit sitt á almannafæri. En það er allt annað að banna múslimakonum eingöngu að hylja andlit sín. Ég get ekki betur skilið af þessari frétt, en að allir Frakkar megi ganga um götur landsins með húfu á höfði og sokk yfir andlitinu, bara svo lengi sem það er ekki múslimakona með slæðu sem hylur hár sitt og andlit. Þetta eru ekkert annað en ofsóknir gegn ákveðnum trúarbrögðum og er algerlega óafsakanlegt. Af hverju er allt í lagi að ofsækja Múslima? Hvað er að vestrænu samfélagi? Það er nú ekki það langt síðan að síðustu ofsóknir af slíku tagi náðu hámarki með ógleymanlegum hryllingi seinni heimstyrjaldarinnar. En það gerðist ekki yfir nótt, það byjaði smátt. Gyðingum var bannað þetta og svo var þeim bannað hitt, og hægt og rólega þróaðist það út í misþyrmingar og blóðsúthellingar sem enginn nema rétt ypti öxlum yfir, því siðferðiskenndin var orðin svo brengluð af þessu stigvaxandi ástandi. Ég get ekki samþykkt þessa framkomu gegn neinum, hvorki múslimum né öðrum, og mér finnst sorglegt að sjá stjórnvöld nokkurs lands koma svona fram við þegna sína.
mbl.is Frakkar stefna að blæjubanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spillta Ísland

Það er víða pottur brotinn að því er virðist. Áhugaleysi stjórnvalda á því að upplýsa og uppræta þetta mál allt saman er svívirðilegt, og það að við séum nú að missa einn þann hæfasta sérfræðing sem völ er á á þessu sviði, vegna þessa "áhugaleysis", er hreint út sagt sorglegt og hreinlega hrópar út: SPILLING! Við vorum með eindæmum heppin að fá Joly til samstarfs við okkur til að byrja með, en þegar maður hugsar aðeins til baka þá voru það ekki stjórnvöld sem voru að falast eftir hennar aðstoð, það er að segja ekki fyrr en almenningur hrópaði á það eftir komu hennar í hinn ágæta þátt Silfur Egils.

Spillta Ísland. Mér líður eins og ég eigi heima í þriðja heims ríki sem var að koma út úr skápnum, öllum þegnum sínum að óvörum. Og ég viðurkenni það að ég er ekki stolt. Ég er ekki stolt af því að hafa blindandi tekið þátt í þessu, mér líður svolítið eins og ég hafi óafvitandi þegið mútur. Ég hafði það óheyrilega gott, og svo sprangaði maður um heiminn og gaspraði og gólaði að ástæðan fyrir þessu ljúfa lífi væri það hversu óspillt samfélag okkar Íslendinga væri, "Tja, við erum svo voðalega fá að það mundi aldrei líðast nein spilling, það mundi alltaf komast upp!" Það var og. Og ég virkilega trúði þessu, eins og kjáni.


mbl.is Vill að ríkissaksóknari víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tannlæknir

Ég, líkt og margir aðrir, reyni að fara árlega í skoðun hjá tannlækni til að vera viss um að allt sé nú lagi í munnholinu, en það var einmitt slík skoðun sem ég útdeildi tíma mínum í nú í morgun. Ég átti nú ekki von á neinum skelfilegum fréttum þar sem ég hef ekki fundið til neinna óþæginda og var þar af leiðandi mjög afslöppuð yfir þessu. Fékk mér væna skál af súrmjólk í morgunmat, gaf kisunum sinn morgunmat og leit svo í spegil. Ég er ekki frýnileg á morgnanna og dagurinn í dag var engin undantekning. Koddabeyglur á kinninni, hár eins og á lukkutrölli og þótt spegillinn segði kannski minnst um það, þá vissi ég að allar líkur væru á því að ég væri andfúl í þokkabót.
Meðan ég burstaði tennurnar ákvað ég að það væri flenninóg að bursta bara hárið og fara í kjól. Það er alveg nógu fínt fyrir tannsa. Ekki eins og að maður af kynslóð föður míns (ef ekki afa) mundi sjá muninn á því hvort ég hefði fyrir mér á morgnanna eða ekki. Svo ég lagði af stað. Með stýrur. Og koddabeyglur. En ég var allavega í sætum kjól, svona voða fínn vafinn sumarkjóll. Eins og ég segi, alveg flenninóg.
Þegar til tannsa var komið bætti ég tuskulegt útlitið um betur með bláum plastpokum yfir skóna mína. Útlitslegur ófögnuður samfélgasins. Settist á biðstofunni og kroppaði stýrur úr augnkrókunum. Ég þurfti ekki að bíða lengi þar til nafn mitt var kallað, og inn þrammaði ég skrjáfandi plastpokaskrefum, frk. Ófögnuður Samfélagsins.

Þarna fór svo eitthvað úrskeiðs. Á móti mér tekur ekki minn vanalegi gamli góði tannsi, heldur nýji samstarfsfélagi hans sem við skulum bara kalla Mr. Handsome, með rentu. Koddabeyglurnar, úfið hárið og bláu skrjáf-fæturnir átu mig lifandi. Hégómleikinn, sem hafði mjög ákveðið ætlað að sofa út, vaknaði skyndilega eins við kalda gusu og mig langaði að hlaupa út. Til að gera langa sögu stutta potar ungi maðurinn og klípur í gynið á mér og endar svo með því að pensla tennurnar með horlituðu flúorjukki til að hressa enn fremur upp á útlit mitt. Ég sest upp að lokinni meðferð og bréfþurrkan er fjarlægð af bringunni á mér. Öllum að óvörum hefur mér tekist að toppa það ótoppanlega ástand sem ég var þegar komin í. Fíni vafði kjóllinn - það eina sem var ásættanlegt við útlit mitt - hafði losnað og ég var með óundirbúna undirfatasýningu fyrir Mr. Handsome, sem var að vonum brugðið, enda fátt eins kynþokkafullt og tuskulegur kvenmaður í fráhnepptum kjóll, bláum plastpokaskóm og með gula drullu á tönnunum - frk. Ófögnuður Samfélagsins í öllu sínu veldi! Ég staulaðist svo loks þaðan út, með sjálfsmyndina í molum.

Ég á svo annan tíma eftir rúma viku til að athuga með endajaxl.


Eru stuttar ermar klám?

Ekki get ég séð að þetta sé neitt sérstaklega klámfenginn búningur sem stúlkan í auglýsingunni er í. Það sést hvorki í leggi, maga né bringu eða barm, bara í andlit hennar og arma. Vissulega er kjóllinn þrengri en slopparnir sem hjúkrunarfræðingar klæðast við vinnu sína, en ég get ekki kvittað fyrir að það sé nóg til að þetta teljist klámfengið.
Ég geri mér grein fyrir því að hjúkkuþemað er gríðarvinsælt í klámvæðingunni, og það er örugglega mjög leiðingjarnt fyrir hjúkrunarfræðinga, en ef ekki má vísa til starfstéttarinnar nema að viðkomandi mynd sé af manneskju í hólkvíðum slopp og crocks klossum - annars fer allt í uppþot - þá þykir mér viðkæmnin bera almenna skynsemi ofurliði.
Það er mín skoðun allavega.
mbl.is Ósátt við auglýsingabækling
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta blogg er í óskipulögðum dvala

Kannski að ég fari að skrifa eitthvað aftur nú þegar það er komið sumar og skólabækurnar eru í felum, enda með eindæmum sólfælnar. Vampýrur? Þær sjúga mig að minnsta kosti upp til agna, svo mikið veit ég.
Sjáum hvað setur. Kannski verð ég alveg argavitlaus einhverntíman á næstu vikum og þá má nú aldeilis búast við bloggi. Ég er svoddan tuðari þegar mér mislíkar hlutirnir, sbr. munaðarleysingjahælin í Kína eða mannréttindabrot gegn Tíbetum, Palestínumönnum osfrv.

En í dag ákvað ég að heimsækja þennan undirheim Morgunblaðsins, þar sem fúk- og meinyrði komast í einskonar siðferðislegt skattaskjól, til þess að reyna að gæða hann einhverri fegurð: ég kom hingað til að gorta mig af frumburði systur minnar. Ég er sumsé móðursystir. Altso ég á systurdóttur. Svo ég sletti, þá er ég "auntie". Ergo ég er العمه أو الخاله أو زوجه العم أو الخال .

Roggin? Ég? Jæja, ég viðurkenni það bara, enda hef ég líka fullan rétt á því að vera það!

Þar til næst - ég mæli þó ekki með því að halda niðri andanum.


Síðast þegar ég gáði var Egyptaland í Afríku

Þannig að það eru ekki mjög stórar fréttir að Egyptar séu þar af leiðandi afrískir. En ég er svosem enginn sérfræðingur.....
mbl.is Kleópatra af afrískum uppruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá aldrei rottur þegar ég bjó í Xi'an

En ég sá hins vegar fullt af kisum. Kannski, bara kannski, voru þetta alls ekki kettir eftir allt.

Hins vegar nefnir fréttin tvær borgir, annars vegar Fuzhou og hins vegar Xi'an. Þannig að ég get enn leyft mér að vona að kisurnar sem ég gaf stundum gott í gogginn hafi vissulega verið kisur.


mbl.is Risarotta í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegar fréttir

Mikið þykir mér leiðinlegt að heyra svona fréttir. Ég óska Geir bata og vona að fólk sjái sóma sinn í því að sýna honum og fjölskyldu hans virðingu. Þetta er ekki lítið áfall fyrir þau. Að sama skapi er ég fegin að frétta það að Ingibjörg Sólrún sé á góðum batavegi. Svona mál koma stjórnmálum ekkert við, og ég hvet fólk til að muna það að koma fram við annað fólk af virðingu - þótt það sé ekki sátt við viðkomandi í starfi. Mér blöskrar að heyra að það hlakkar í sumum einstaklingum yfir þessu, ég er hreinlega orðlaus yfir illskunni sem leynist í sumu fólki.
mbl.is Geir: Kosið í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heyr heyr!

Nú er ég líklega stolt af kvartbaunanum í mér, því eins og einn gerði athugsemd hér um nýlega kemur ætterni mitt af einhverjum ástæðum skoðunum mínum við.

Gera Íslendingar ekki fylgt þessu fordæmi? Eða hefur Íslenska ríkið kannski ekki stutt nein mannúðarverkefni í Palestínu? Nú er ég ekki nógu vel að mér, endilega upplýsið mig ef einhver veit um þau mál.

Það væri hreint ekki slæmt að fá smá pening í ríkiskassann, og ekki væri ég með neitt samviskubit ef það kæmi frá Ísrael eins og staðan er í dag ;o)


mbl.is Vilja lögsækja Ísraela
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég vil ekki hata...

en það er að styttast verulega í þræðinum hjá mér gagnvert Ísraelsmönnum - og BNA fyrir að fjámagna þennan viðbjóð. Hernaðaraðgerðir? Þetta er ekki hernaður þegar einn risastór her ræðst á saklausa borgara, sprengir skóla, leiksskóla og heimili, og er svo í mun að ekki berist aðstoð til deyjandi barna að þeir sprengja bílalest SÞ og reka Rauða Kross starfsmenn burt frá nauðstöddum. Þetta er ekki hernaður þetta er útrýming. Það er enginn her að berjast á móti þeim.

Hvernig getur þjóð sem þurfti að þola þjóðflokkahreinsun sjálf snúið sér við og gert nákvæmlega sama hlutinn við aðra þjóð?

Og svo kalla þeir sig "Guðs útvöldu þjóð"! ........Það er veruleg gjá á milli hjarta þessa fólks og Guðs, svo mikið er víst.


mbl.is Ísraelar halda hernaði áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband