Update #11

Kom frá Jeddah í morgun. Þetta var nú meira þrælaflugið. En nú eru suppy flugin, eða þjálfunar flugin á enda og alvaran að taka við í komandi viku. Ekki það að það var enginn tími fyrir neina þjálfun í þessu seinna suppy flugi þar sem allt var á hvolfi vegna þess að vélin var vitlaust hlaðin af fólkinu á flugstöðinni (ground-staff/catering). Við fengum morgunmat fyrir kvöldmat, svo það voru eggjakökur, muffins og jógúrt í kvöldmat fyrir gestina, en matseðillinn sagði lamb, fiskur, nautakjöt svo fólkið var ekki par hrifið þegar það fékk plattann sinn :o/ ó jæja.
Fyrra suppy flugið var frábært. Á leiðinni út mátti ég ekki gera neitt nema að hafa það gott í business sæti og líta í kringum mig. Það var verið að prófa nýja þjónustu og það varð að vera ljóst hvernig hún gengi með venjulegan fjölda starfsfólks. Þegar út var komið gerði ég mér grein fyrir þvi að það er monsoon. Ég hafði ekkert hugsað út í það. Það væri nú lélegt af Íslendingnum að láta smá rigningu á sig fá svo það var planað að fara í smá skoðunarleiðangur næsta dag, eða þegar ég væri búin að hvílast smá. Sú hvíld var nú ekki upp á marga fiska þar sem í miðju 'lúllinu' mínu náði rigningin yfirhöndinni í baráttunni við þakið, og VÁ hvað það lak! ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins.
Skoðunarferðin var mjög skemmtileg. Við fórum í Backwater siglingu, en það er fljót sem blandast sjónum og líður um kyrrlátt svæði þar sem fólk býr við bakkana, lifir fábreyttu lífi og hefur líklega takmarkðan skilning á hugtakinu alsnægtir. En friðurinn og róin voru engu lík. Einu hljóðin sem heyrðust voru skógarhljóð, krákugarg (það er allt morandi í krákum þarna) fuglasöngur, gutlið í vatninu og stöku baul frá heilögum kusum.
Í miðri ferðinni kom svo monsoon skúr yfir okkur og þrátt fyrir "þakið" á bátnum okkar varð ég svo holdvot á þessum 3 eða 4 mínútum að ég þurfti að vinda skálmarnar á buxunum mínum.
Eftir tvo róandi klukkutíma fljótandi um var haldið niður að sjó þar sem vitinn er. Þar gengum við strandlengjuna og kíktum í bása þar sem heimamenn voru að selja heimatilbúinn varning. Ég keypti skokk og buxur á heilar 700 ISK ;o) Verst er það að mann langar helst að kaupa eitthvað af öllum því svo margt af þessu fólki á varla ofan í sig og á. Sumir voru þó búnir að koma sér upp litlum verslunum en aðrir voru með tötralega taupoka og þrifu upp úr þeim þann varning sem þau höfðu upp á að bjóða í hvert skipti sem þau sáu hugsanlega kaupendur. Einn var með skó, annar með töskur, enn annar með útskornar skálar, og einhver með fatnað.
Brátt var kominn tími til að halda upp á hótel aftur og leigðum við okkur TukTuk til verksins. Það var hrikalega gaman, þótt svo ég hafi vafalaust ferðast með öruggarari fararskjótum um æfina.
Rafmagnið fór af reglulega allt kvöldið en ofur-vinalegt starfsfólkið var ekki lengi að redda kertum og gera svartamyrkrið notalegt.
Það eina sem var ekki nógu gott var moskítófaraldurinn. Eins og þeir sem þekkja mig vita þá er það ekki gott þegar ég er bitin þar sem ég er með ofnæmi fyrir moskítóflugum - og ég var bitin í tætlur! Daginn eftir var ég komin með risa stórar blöðrur og nístandi sársauka, mér leið eins og húðin á mér væri að rifna. Um leið og ég kom heim til Abu Dhabi fór ég til læknisins þar sem skorið var á kílin og ég sett á alls konar lyf. Einnig var ég beðin að vera vakandi fyrir því ef ég sýndi einhver sljóleikamerki eða fengi hita, vegna hættu á malaríusmiti.
Það þarf kanski ekki að taka það fram að ég er búin að fjárfesta í skordýrafælukremi fyrir komandi stopp í Indlandi, en ég fer tvisvar í viðbót þangað í ágúst.

Jæja, nóg raus í bili. Ég vildi setja myndir með færslunni en eftir þessa bilun sem varð í Moggablogg kerfiu um daginn virkar ekkert sem skyldi, en þið hafið kannski teið eftir því að af einhverjum ástæðum breyttist allt útlit síðunnar minnar líka og ég get ekki einu sinni lagað það.

Okídókí, þar til næst :o)

P.S. endilega skiljið eftir athugasemdir, mér finnst svo gaman að lesa þær :o)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Íris

hæhæ

það varð eh bilun hérna, missti alla mína 4 vini haha.  Gaman að sjá myndir frá þér.  

Annars erum við hér í blíðskaparveðri og bara æði.  Held mig að mestu í skugganum að vísu hehe.  

Söknum þín Fríða mín og hugsum til þín reglulega.  Veit að þú ferð vel með þig enda klár og hugrökk stelpukind   Kíki alltaf reglulega hvort þú sért búin að skrifa eitthvað. 

Íris , 31.7.2008 kl. 19:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband