Tannlæknir

Ég, líkt og margir aðrir, reyni að fara árlega í skoðun hjá tannlækni til að vera viss um að allt sé nú lagi í munnholinu, en það var einmitt slík skoðun sem ég útdeildi tíma mínum í nú í morgun. Ég átti nú ekki von á neinum skelfilegum fréttum þar sem ég hef ekki fundið til neinna óþæginda og var þar af leiðandi mjög afslöppuð yfir þessu. Fékk mér væna skál af súrmjólk í morgunmat, gaf kisunum sinn morgunmat og leit svo í spegil. Ég er ekki frýnileg á morgnanna og dagurinn í dag var engin undantekning. Koddabeyglur á kinninni, hár eins og á lukkutrölli og þótt spegillinn segði kannski minnst um það, þá vissi ég að allar líkur væru á því að ég væri andfúl í þokkabót.
Meðan ég burstaði tennurnar ákvað ég að það væri flenninóg að bursta bara hárið og fara í kjól. Það er alveg nógu fínt fyrir tannsa. Ekki eins og að maður af kynslóð föður míns (ef ekki afa) mundi sjá muninn á því hvort ég hefði fyrir mér á morgnanna eða ekki. Svo ég lagði af stað. Með stýrur. Og koddabeyglur. En ég var allavega í sætum kjól, svona voða fínn vafinn sumarkjóll. Eins og ég segi, alveg flenninóg.
Þegar til tannsa var komið bætti ég tuskulegt útlitið um betur með bláum plastpokum yfir skóna mína. Útlitslegur ófögnuður samfélgasins. Settist á biðstofunni og kroppaði stýrur úr augnkrókunum. Ég þurfti ekki að bíða lengi þar til nafn mitt var kallað, og inn þrammaði ég skrjáfandi plastpokaskrefum, frk. Ófögnuður Samfélagsins.

Þarna fór svo eitthvað úrskeiðs. Á móti mér tekur ekki minn vanalegi gamli góði tannsi, heldur nýji samstarfsfélagi hans sem við skulum bara kalla Mr. Handsome, með rentu. Koddabeyglurnar, úfið hárið og bláu skrjáf-fæturnir átu mig lifandi. Hégómleikinn, sem hafði mjög ákveðið ætlað að sofa út, vaknaði skyndilega eins við kalda gusu og mig langaði að hlaupa út. Til að gera langa sögu stutta potar ungi maðurinn og klípur í gynið á mér og endar svo með því að pensla tennurnar með horlituðu flúorjukki til að hressa enn fremur upp á útlit mitt. Ég sest upp að lokinni meðferð og bréfþurrkan er fjarlægð af bringunni á mér. Öllum að óvörum hefur mér tekist að toppa það ótoppanlega ástand sem ég var þegar komin í. Fíni vafði kjóllinn - það eina sem var ásættanlegt við útlit mitt - hafði losnað og ég var með óundirbúna undirfatasýningu fyrir Mr. Handsome, sem var að vonum brugðið, enda fátt eins kynþokkafullt og tuskulegur kvenmaður í fráhnepptum kjóll, bláum plastpokaskóm og með gula drullu á tönnunum - frk. Ófögnuður Samfélagsins í öllu sínu veldi! Ég staulaðist svo loks þaðan út, með sjálfsmyndina í molum.

Ég á svo annan tíma eftir rúma viku til að athuga með endajaxl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband