Mikill gróði í þessum bransa

Það er hrikalegt hvernig farið er með börn og svo rosalega víða líka. Í Kína má oft sjá börn leika listir sínar á götuhornum, torgum og öðrum almenningsstöðum. Þau eru óendanlega liðug og standa á haus og gera allra handa kúnstir líkt og færustu sirkusmeðlimir. Önnur eru hins vegar fötluð, yfirleitt vantar á þau útlim eða að einn eða fleiri útlimir eru afbakaðir á einhvern hátt. Strax fyrstu vikuna mína í Kína var ég vöruð við af samstarfsfólki mínu á munaðarleysingjahælinu að gefa þessum börnum aldrei pening, með því væri ég að styrkja gríðarstóran glæpahring sem svífst einskis. Eins og flestir vita eru lög í Kína um það að hver hjón megi bara eiga eitt barn. Af þessum sökum ber fólk oft út börn sín séu þau:

A) númer tvö eða meira í röðinni
B) ekki heilbrigð (margir hafa ekki efni á læknisþjónustu)
C) stúlkur - þó svo þetta sé sem betur fer búið að batna til muna (ekki síst því það er skortur á giftingarefni fyrir strákana!)

En hins vegar er babb í bátnum á þessu kerfi. Það er nefnilega ólöglegt að yfirgefa börn sín þannig að fólk getur ekki farið með þau beint á munaðarleysingjahæli*. Hvað gerir það þá? Jú, það skilur börnin eftir í almenningsgörðum, á almenningsklósettum, í verlsunarmiðstöðvum, í súpermarkaðnum o.s.frv. Svo verða þau bara að vona að sá sem finnur barnið muni fara með það á munaðarleysingjahæli, en það getur samt eldrei vitað örlög barnsins með vissu.

Þetta gerir mansal ansi auðveldan leik. Það mun enginn lýsa eftir þessum börnum, svo mikið er víst. það er fólk tengt þessum glæpaklíkum sem vinnur hreinlega við það að leita að yfirgefnum smábörnum. Sum börn eru heppnari en önnur, en það eru þau sem lenda í herþjálfun til að verða heimsins klárustu fimleikasnillingar fyrir 5 ára aldurinn. Þeim er þrælað út allan daginn og fá lágmarksmat og sofa í hrúgum til að halda á sér hita í litlum földum holum þar sem enginn veit af þeim nema þrælahaldararnir. Mörg hver lifa ekki af. En eins og ég segi, þau eru þau heppnu. Þau óheppnu eru þau sem nokkurra mánaða gömul eru tekin og höggvin í sundur, altso hendur eða fætur eða útlimir í heild sinni höggnir af þeim. Hinn möguleikinn er að útlimirnir eru mölbrotnir og látnit gróa þannig að þau líta út fyrir að hafa fæðst alvarlega fötluð. Sum þeirra eru svo illa farin að þau eru á einskonar hjólabrettum til að komast ferða sinna. Þar sem þessi börn eru svo betla, annað hvort út á fimleikahæfileikana eða fötlununa, má alltaf sjá mis-skuggalegann mann eða konu á næsta horni sem tæmir skálina reglulega. Þetta eru þrælahaldararnir. Þannig fylgjast þau ekki bara með hverjum aur sem í skálina kemur heldur tryggja einnig að barnið muni ekki leita sér hjálpar hjá neinum.

Um leið og ég vissi sannleikann skildi ég varla hvernig mér gat yfirsést þetta. Hvar sem fannst barn að betla var næsta víst að á nærliggjandi horni mátti sjá þrælahaldarann, sem missti ekki augun af gróðalindinni sinni. Þvílíkur viðbjóður.

* Umfjöllun mína um munaðarleysingjahælin má svo finna hér, en ég skrifaði þessa færslu þegar ég var enn úti og er hún því ekki skrifuð með íslenskum stöfum:

http://kaaber.blog.is/blog/kaaber/day/2007/9/11/


mbl.is Komið upp um mansal á börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband