Færsluflokkur: Bloggar

update #12

imagesNú er ég lasin og má ekki fljúga. Fékk salmonellu í kaupbæti með buffalo vængjum (hugsa að það hafi verið þeir). Finn samt ekki fyrir neinum slappleika eða neinu, líður bara dúndrandi vel. En vegna möguleikans á því að ég geti enn verið smitandi vildi læknirinn ekki leifa mér að fara í flugið mitt í dag. Ég er hrikalega svekkt, ég átti að fara í layover í Amman og var búin að gera voða plan að fara að skoða Dauðahafið. En, svona er þetta.

Núna er svo búið að breyta planinu mínu vegna veikindanna og nú er ég á Sydney standby, svo ég vona bara að ég verði kölluð út. Það væri smá uppbót fyrir Dauðahafsmissinn. 

Annars á unglambið hann faðir minn (eða labbi eins og ég hef kallað hann frá þeim tíma er ég kunni ekki að segja pabbi) afmæli í dag, svo það er um að gera að skella mér út í bakarí og fá mér eina litla köku í tilefni dagsins :o)

 

Lifið heil og fulleldið kjúllann ykkar. Ávallt. 


Update #11

Kom frá Jeddah í morgun. Þetta var nú meira þrælaflugið. En nú eru suppy flugin, eða þjálfunar flugin á enda og alvaran að taka við í komandi viku. Ekki það að það var enginn tími fyrir neina þjálfun í þessu seinna suppy flugi þar sem allt var á hvolfi vegna þess að vélin var vitlaust hlaðin af fólkinu á flugstöðinni (ground-staff/catering). Við fengum morgunmat fyrir kvöldmat, svo það voru eggjakökur, muffins og jógúrt í kvöldmat fyrir gestina, en matseðillinn sagði lamb, fiskur, nautakjöt svo fólkið var ekki par hrifið þegar það fékk plattann sinn :o/ ó jæja.
Fyrra suppy flugið var frábært. Á leiðinni út mátti ég ekki gera neitt nema að hafa það gott í business sæti og líta í kringum mig. Það var verið að prófa nýja þjónustu og það varð að vera ljóst hvernig hún gengi með venjulegan fjölda starfsfólks. Þegar út var komið gerði ég mér grein fyrir þvi að það er monsoon. Ég hafði ekkert hugsað út í það. Það væri nú lélegt af Íslendingnum að láta smá rigningu á sig fá svo það var planað að fara í smá skoðunarleiðangur næsta dag, eða þegar ég væri búin að hvílast smá. Sú hvíld var nú ekki upp á marga fiska þar sem í miðju 'lúllinu' mínu náði rigningin yfirhöndinni í baráttunni við þakið, og VÁ hvað það lak! ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins.
Skoðunarferðin var mjög skemmtileg. Við fórum í Backwater siglingu, en það er fljót sem blandast sjónum og líður um kyrrlátt svæði þar sem fólk býr við bakkana, lifir fábreyttu lífi og hefur líklega takmarkðan skilning á hugtakinu alsnægtir. En friðurinn og róin voru engu lík. Einu hljóðin sem heyrðust voru skógarhljóð, krákugarg (það er allt morandi í krákum þarna) fuglasöngur, gutlið í vatninu og stöku baul frá heilögum kusum.
Í miðri ferðinni kom svo monsoon skúr yfir okkur og þrátt fyrir "þakið" á bátnum okkar varð ég svo holdvot á þessum 3 eða 4 mínútum að ég þurfti að vinda skálmarnar á buxunum mínum.
Eftir tvo róandi klukkutíma fljótandi um var haldið niður að sjó þar sem vitinn er. Þar gengum við strandlengjuna og kíktum í bása þar sem heimamenn voru að selja heimatilbúinn varning. Ég keypti skokk og buxur á heilar 700 ISK ;o) Verst er það að mann langar helst að kaupa eitthvað af öllum því svo margt af þessu fólki á varla ofan í sig og á. Sumir voru þó búnir að koma sér upp litlum verslunum en aðrir voru með tötralega taupoka og þrifu upp úr þeim þann varning sem þau höfðu upp á að bjóða í hvert skipti sem þau sáu hugsanlega kaupendur. Einn var með skó, annar með töskur, enn annar með útskornar skálar, og einhver með fatnað.
Brátt var kominn tími til að halda upp á hótel aftur og leigðum við okkur TukTuk til verksins. Það var hrikalega gaman, þótt svo ég hafi vafalaust ferðast með öruggarari fararskjótum um æfina.
Rafmagnið fór af reglulega allt kvöldið en ofur-vinalegt starfsfólkið var ekki lengi að redda kertum og gera svartamyrkrið notalegt.
Það eina sem var ekki nógu gott var moskítófaraldurinn. Eins og þeir sem þekkja mig vita þá er það ekki gott þegar ég er bitin þar sem ég er með ofnæmi fyrir moskítóflugum - og ég var bitin í tætlur! Daginn eftir var ég komin með risa stórar blöðrur og nístandi sársauka, mér leið eins og húðin á mér væri að rifna. Um leið og ég kom heim til Abu Dhabi fór ég til læknisins þar sem skorið var á kílin og ég sett á alls konar lyf. Einnig var ég beðin að vera vakandi fyrir því ef ég sýndi einhver sljóleikamerki eða fengi hita, vegna hættu á malaríusmiti.
Það þarf kanski ekki að taka það fram að ég er búin að fjárfesta í skordýrafælukremi fyrir komandi stopp í Indlandi, en ég fer tvisvar í viðbót þangað í ágúst.

Jæja, nóg raus í bili. Ég vildi setja myndir með færslunni en eftir þessa bilun sem varð í Moggablogg kerfiu um daginn virkar ekkert sem skyldi, en þið hafið kannski teið eftir því að af einhverjum ástæðum breyttist allt útlit síðunnar minnar líka og ég get ekki einu sinni lagað það.

Okídókí, þar til næst :o)

P.S. endilega skiljið eftir athugasemdir, mér finnst svo gaman að lesa þær :o)


update #10

Þá er náskeiðinu loksins lokið og ég orðin 'bona fide' flugfreyja. Ég. Af öllu fólki. Útskriftin var í gær og þá fluttum við skemmtiatriðið sem er skylda hvers hóps að útbúa og flytja á útskriftardaginn. Ein úr hópnum fékk áhorfanda til að taka þetta upp fyrir okkur, en því miður var sú eitthvað ósátt við atriðið og slökkti á upptökunni. Eða þá að hún var að sanna orðróminn um það að konur kunna ekki á tækni. Ég er búin að sannfæra sjálfa mig um að seinni möguleikinn sé eini möguleikinn.

Húrra!

 Við ákváðum að gera gott um betur en fyrri fluffur og vera fyrsti hópurinn til að útbúa minjagrip fyrir okkur að eiga um aldur og æfi. Þetta vakti mikla kátínu meðal kennaranna sem fannst þetta frábær hugmynd. Til að slá tvær flugur í einu höggi var ákveðið að hafa þetta nytjahlut og því tókum við voða fína hópmynd og prentuðum á bolla. Af því að við erum ekki bara föngulegur heldur einnig raunsær hópur kvenna vissum við að eftir ákveðinn tíma er óhjákvæmilegt að við gleymum nöfnum hvorrar annarar svo við skelltum einnig nöfnunum okkar á bollann góða. 

Um kvöldið var svo farið út að borða við höfnina, eða við snekkjuklúbbinn öllu heldur.  Veitingastaðurinn var allur eiturgrænn að innan og bar nafnið Bambu. Fínn matur samt. Einhvers konar asísk blanda. Besti rétturinn fannst mér vera sítrónukjúllinn. Mæli með því að prófa þennan rétt ef þið sjáið það einhverntíman á matseðli. 

Nú er bara að undirbúa sig fyrir Indlands stopp á sunnudaginn. Trivandrum heitir staðurinn og mér skilst að þetta sé algjör paradís. ég hyggst taka einhvejar myndir þar því til sönnunar/afsönnunar. Kemur í ljós. 


gæludýrið

Á aðfaranótt þriðjudags átti ég svefnlausa nótt sökum partýstands í næstu íbúð. Endaði þetta með því að ég flúði inn í stofu og kom mér fyrir með lak og kodda í litla tveggja sæta sófanum þar, en stofan er eina herbergið sem ekki deilir veggjum með glaumgosunum og var þar af leiðandi eina herbergið sem var nokkur von að ná smá lúr í. 

bara að ég hefði náð henni, nammi nammÞegar ég var að koma mér út um morguninn, þreytt og lúin, með beyglað bak, sá ég nokkuð mér til mikillar undrunar. Ég hafði ekki verið ein í eymd minni eftir allt. Það var eiturhress engispretta að trítla og hoppa um gólfið.  í þessum steikjandi hita opnar ekki nokkur manneskja gluggana hjá sér og er ég ekki undanskilin. Hvernig í ósköpunum komst hún þá inn? Jæja, ég hafði ekki tíma til að veiða litla óboðna gestinn minn, þar sem ég var að verða sein svo ég lokaði hurðinni að stofunni í staðin, þaðan er hvort eð er engin undankomuleið svo hún mundi bara þurfa að bíða heimkomu minnar til að komast út. 

Ég var búin að plana allt út í ystu æsar. Ég ætlaði að veiða vinkonuna í glas og loka fyrir með blaði, fara svo í smá labbitúr yfir í hinn enda íbúðarinnar og henda henni út um svefnherbergisgluggann (til að gefa henni meiri lífslíkur, slik er gæskan). En allt kom fyrir ekki. Þegar ég kom heim fann ég hana hvergi. Ég leitaði mjög vandlega og strategískt og ég leitaði aðeins mera  og hélt svo áfram að leita. Leitin fór fram í hverjum krók og kima íbúðarinnar, þrátt fyrir það að ég hefð lokað hana inni í stounni. Ég er búin að leita í þrjá daga núna. Hún er horfin. Hvernig veit ég ekki, en hún er allavega ekki hérna lengur, ég er nokkuð viss um það. Ég hef loftræstikerfið grunað, þótt svo ég hafi enga sönnun og geti ekki fengið skilið hvað fær engisprettu til að leita í kaldan blástur. 


Var að skoða blogg

og rakst á þessa skemmtilegu færslu. Ég fékk smá heimþrá að sjá/heyra af vinafólkinu heima. Merkilegt nokk að þegar ég er svona langt í burtu finnst mér að allt eigi að standa í stað heima. Eins og það sé útilokað að fólk eigi sér nokkuð líf nema að ég sé þar til að vera vitni að því. Það eina sem mundi ekki koma mér á óvart væri fallinn meirihluti í borgarstjórn eða fréttir af hvítabirni. Ef björninn reyndist svo vera plastpoki fastur í gaddavír mundi það líklega ekki heldur reka mig í rogastans.Anywho, þá efast ég ekki um að Valli og co. hafi haldið uppi góðum glaum að vanda. Gaman líka að sjá aftur þetta fína myndband hans Freymars og ekki má gleyma óaðfinnanlegu andliti Hauksins. Já, það er greinilegt að lífið heldur áfram á frónni, jafnvel í fjarveru minni.

Update #9

Þessa vikuna erum við í þjónustu þjálfun. Síðustu daga höfum við verið að læra allt um barþjónustu: bar service, individual bar service, hot beverage bar service o.s.frv. Í dag vorum við að læra um úrval áfengra drykkja um borð í vélinni og þau hanastél og drykki sem við getum útbúið úr þeim. Ég hafði sérlega gaman af því að læra um ferlin við gerð áfengis og hvað það er sem skiptir mestu máli í greiningu góðs áfengis, t.d. vodka. 

vín

 Við fengum allar einhverja drykki til að kynna fyrir hópnum. Við þurftum að segja úr hverju drykkurinn er unninn, hversu mörg prósent hann er, hvaða flokki hann tilheyrir og hvaða drykki er hægt að útbúa úr þeim og hvernig. Drykkirnir sem mér voru fengnir voru Kalhúa, Britburger og Amstel Light, altso líkjör, léttbjór og bjór. Þetta var mjög skemmtilegt, verst að ég drekk ekki áfengi svo ég mun aldrei vita hvernig þessi hanastél smakkast þótt ég kunni núna að útbúa þau. 

Á morgun förum við í Duty Free. Það er alltaf ein manneskja um borð sem er Duty Free Operator. Þessi heppna manneskja fær að sjá um alla pappírsvinnuna, og enginn annar fær að fara í vagninn nema hann/hún. Hvað fær viðkomandi svo fyrir erfiðið? Jú, hann/hún fær söluprósentur en þar að auki fer sölutalan í pott og á 6 mánaða fresti er athugað hver er söluhæstur og sá fær vegleg verðlaun. Síðast var það splunkunýr Mini Cooper og 1.000 DHS í vasann fyrir bensíni og svona. Þessi stelpa fékk val um það hvort hún vildi halda bílnum, eða ef hún vildi hann ekki af einhverjum ástæðum, hefði bíllin verið keyptur út af henni á fullu umboðsverði. Hún vildi halda bílnum, en mér finnst frábært að henni hafi verið gefið þetta val þar sem það vilja ekki allir vera á bíl í svona bílastæðalausri borg. Svo eru nú ekkert allir með bílpróf heldur.

Þess má til gamans geta að salan sem poppaði upp sölutöluna hjá þessari stelpu (samkvæmt orðrómnum) var þegar einhver ægilega indæll Sheikh var um borð og keypti nánast upp Duty Free vagninn. Hann á víst að hafa tekið sumt með sér frá borði, en öðru var dreift á flugfreyjurnar og flugþjónana sem gjafir fyrir góða þjónustu. Hvort það sé satt að þetta hafi átt við í þessi tilfelli veit ég auðvitað ekkert um, en hins vegar hef ég heyrt að þetta gerist stundum í vélinni þegar að ríkir farþegar eru annars vegar. Þá eru allar flugfreyjurnar vinsamlegast beðnar að velja sér ilmvatn eða skartgrip sem þakkarvott, þótt almennt kaupi ekki einn aðili allt úr vagninum.

 Jæja, þá vitið þið það. Þið þurfið að hvetja alla sem þið þekkjið til að fljúga með Etihad þegar ég er að vinna og er líka DFO svo að ég fái verðlaun einhverntíman :o) 

 


Rakst

á þessa síðu fyrir tilviljun. Verð að segja að það er alltaf jafn frábært að heyra af góðu starfi. Heimurinn er fullur af góðu fólki sem er tilbúið að leggja talsvert á sig til að láta gott af sér leiða.

Sem betur fer.


update #8

Þetta hefur verið ótrúega skemmtileg vika. Við lærðum að fást við ólíklegustu hluri, til að mynda fæðingu, heilablóðfall, hluti fasta í auga, bruna, lost, dauða um borð og svo framvegis og svo framvegis. Við skiptumst á að leika fórnarlömb annars vegar og að æfa nýfengna kunnáttu okkar sem flugfreyjur hins vegar. Þetta var gríðarega fróðlegt og virkilega gott að vita að maður hafi þetta á bak við eyrað ef eitthvað kemur upp á, en mikið ofsalega vona ég samt að ég muni aldrei nokkurn tíman þurfa að nýta mér þetta.
æ æ ó ó Á meðfylgjandi mynd er ég að leika móðursjúka systur óléttrar konu sem var verið að "hjartastuða". Þrjár stelpur í bekknum voru sendar fram og á meðan útbjó kennarinn smá atburðarás sem var þannig að ég og æfinga-plast-konan erum systur sem tölum bara íslensku en ekki orð í ensku. "Systir" mín fær sumsé hjartastopp og það þarf að þjófstarta henni. Þar sem þetta var í fyrsta skipti sem kennarinn kynnti svona auka vandræði eins og tungumálaörðugleika inn í þjálfunina kom það stelpunum verulega á óvart þegar ég byrjaði að hrópa og kalla á gamla góða hrognamálinu okkar, en þær voru fljótar að koma til og stóðu sig eins og hetjur. Ég var nú bara nokkuð góð í mínu hlutverki líka, þótt ég segi sjálf frá ;o)

update #7

Helgin var frábær. Ég svaf úr mér alla þreytuna frá síðustu viku, en auk þess fórum ég og Ursula í Emirates Palace og sáum sýningu með verkum eftir Picasso. Það var alveg frábært. Ekki það að Emirates Palace er nú alveg ferðarinnar virði jafnvel þegar engin sýning er í gangi. Picasso_High_Resolution 442 x 590 Laugardeginum eyddi ég svo á kaffihúsi með bók í hönd, og gleymdi mér svo stórkostlega að ég fór allt of seint heim og er því hrikalega lúin í dag eftir of lítinn svefn þrátt fyrir góðu hvíldina á föstudaginn. Í dag var ég meira og minna með hroll, gæsahúð, flökureika og kaldan svita þar sem rætt var óþarflega mikið um ÆÐAR og við látin taka púlsinn á okkur sjálfum og svo á sessunautum okkar. Ég er alvarlega að velta því fyrir mér hvort til séu geðlyf handa mér við þessari fóbíu, því þessi vika var rétt að byrja og ég er nokkuð viss um að æðar muni koma oftar við sögu þar sem um skyndihjálparnámskeið er að ræða. Jæja, nú er ég búin að veita sjálfri mér alveg nóga klígju með þessari upprifjun á deginum svo ég verð að dreifa huganum með bók svo ég geti sofnað á eftir. Þar til næst...

update #6

Nú eru öll próf búin í þessu æfingaferli og er ég orðin flughæf á A330-200, A340-300,500&600, A320-200 og A319-100. Þetta var stíft prógram og það er ekki búið þótt SEP hlutanum sé loksins lokið. Í gær fengum við búningana okkar og í dag var allur dagurinn tileinkaður viðhaldi og reglum varðandi búningnn sem og almennt um útlitsreglur svosem förðun, skart, hár og annað. Einnig var enn og aftur meningarfræðsla, en mig er farið að gruna að þau hafi slæma reynslu af fyrri áhöfnum varðandi það að virða bæði menningu landsins sem við búum í, sem og menningu samstarfsfólksins, en það eru yfir 90 mismunandi þjóðerni innan áhafnarflotans.

Í tilefni af því að ljúka SEP hlutanum og því að fá loks fínu búningana okkar ákváðum nokkrar okkar að fara út að borða í gær. Við fórum á steikhús og ég fékk mér ægilega gott lambalæri. Það var náttúrulega ekkert í líkingu við það sem ég fæ hjá múttunni minni, en það var samt mjög gott.

Eftir tíma í dag gerði ég mér svo loks ferð í hinn enda bæjarins til að sækja um íbúðarhúsnæði. Ég var svo uppgefin að ég gleymdi alveg hvað það var sem ég ætlaði að taka fram í sérþörfunum. Ég vona bara að þetta fari allt saman á besta veg samt sem áður.

Jæja, fyrir þá sem það snertir þá ætla ég að setja inn nokkrar myndir snöggvst, ég sendi ykkur link á þær.

Kús og kossar :o*


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband